Niðurskurður og prófalok.
Nú er janúar að klárast. Tíminn hefur liðið vægast sagt hratt. Jólafríinu eyddi ég á Íslandi og naut lífsins til hins ítrasta í fangi fjölskyldu, vina og Nóa konfekts. Mikil ósköp sem það var svo gott að komast í World Class og æfa með Konna þjálfara og stelpunum sem ég hafði saknað svo mikið.
Það er ekki gefið að hafa svona fína líkamsrækt þar sem strákar mega æfa í hlýrabolum og stelpur prófa að fara af skíðavélinni.
Jólin voru frábær að undanskildum síendurteknum tilraunum mínum í að baka smákökur með fyrirsjáanlegum afleiðingum – brenndum smákökum. Mamma þurrkaði þá tárin mín og bakaði handa mér sörur.
Eftir að við komum svo aftur til Þýskalands þann 5. janúar ákvað ég að mig langaði til þess að keppa á Íslandsmótinu í lok mars. Önnin hér klárast í næstu viku og þá taka prófin við. Skólakerfið hér er nokkuð öðruvísi en við erum vön á Íslandi. Sumarfrí þekkist ekki, ónei, ónei.
Önnin klárast og við tekur próftímabil sem er um 2 mánuðir og kennurum er frjálst að dreifa prófum sínum á víð og dreif yfir þetta tímabil og svo hefst næsta önn sem fylgir sömu uppsetningu.
Ég er í 9 áföngum núna og fer í próf úr þeim öllum á 4 vikum svo ég kemst í mánaðarfrí um miðjan mars og ætla að nýta tækifærið og hoppa til hins ylhýra Íslands.
Kærastinn er ekki svo heppinn og klárar sitt seinasta próf 8. apríl en næsta önn hefst svo 12. apríl. En hann ætlar á Justin Bieber tónleika með vinum sínum um páskana svo ekki er öll von úti um gott páskafrí.
Seinustu 3 vikur hafa því verið dálítið strembnar þar sem ég hef þurft að troða morgunbrennslunum inn á milli skólatíma þar sem líkamsræktarstöðin hérna opnar ekki fyrr en kl.8. KLUKKAN ÁTTA! Án gríns, Íslendingar myndu trompast ef World Class myndi skyndilega ákveða að seinka opnunartímanum til kl.8. En það verður að bíta í það súra epli og ef ekki tekst að troða brennslunni milli tímanna er hoppað og skoppað upp á gangstéttarhellu úti á svölum og sippubandið notað óspart. Nágrannarnir halda að ég sé biluð.
Köttið hefur gengið mjög vel og ég keypti mér fituklípu sjálf til þess að geta fylgst með ferlinu sjálf þar sem (að sjálfsögðu) var ekki hægt að fara í fitumælingu í ræktinni. Hreint mataræði frá A-Ö alla daga nema á laugardagskvöldum þegar ég leyfi mér að smakka eitthvað af hinum 1000 tegunda Milkasúkkulaðis sem vex hér á hverju strái.
Fyrsta prófið er á þriðjudaginn í næstu viku og ég er á fullu að undirbúa mig fyrir prófin ásamt því að útbúa nesti, steikja kjúlla, hamast á skíðavélinni, tala bjagaða þýsku og mæta á lyftingaræfingar. Fyndnast er þó að það gengur best að læra þegar mataræðið og æfingarnar eru lýtalaus í hamingjusömu hjónabandi. Ég virðist ekki kunna að læra verkfræði án fitnessmóts en það er nú margt verra en það. Ég er byrjuð að telja dagana - 38 dagar þangað til ég kem heim!
Þangað til næst, auf Wiedersehen!